Menningarsnauð

laxnessListamannalaunum var mokað

í Laxness og alla þessa stóru

og enginn hafði áhyggjur af því

í hvað peningarnir fóru,

því þeir sköpuðu margvísleg menningarverðmæti;

myndlist, tónlist og ljóð.

Það þótti hverrar krónu virði

að geta kallast menningarþjóð.

 

Svo komu fram litlir kapítalistar

sem kveinkuðu sér undan því

að borga fyrir að búa sæmilega

boðlegu samfélagi í.

„Burt með menningu! Burt með listir!“

baula þeir þjóðina á.

Að horfa á Stöð 2 og hlusta á Bylgjuna

er himnaríki fyrir þá.

 

Þegar allt er skoðað og allt er sagt

og öll spilin lögð eru á borðið

þá er merkilegt hve menningarsnauð

ein manneskja getur orðið.

 

Ár hvert heyrist sami söngur

um þá sóun á almannafé

að ölmusa reytt sé í rithöfunda

rétt eins og ekkert sé.

Á þeim sem fjálglegast fleipra má skilja

að fyrir þessa hungurlús

mætti byggja hér heilbrigt heilbrigðiskerfi

og hátæknisjúkrahús.

 

Þegar öllu er svarað og alls er spurt

og öll spilin lögð eru á borðið

þá er makalaust hve menningarsnauð

ein manneskja getur orðið.

 

Fagrar listir fá þig til að hugsa

ef þú ert fær um það til að byrja með.

Hjá heimskingjum og þeim sem hagnast á þeim

er háleit list því illa séð.

Myndlist er veggfóður og ljóð eru ljótt

og leiðinlegt rósamál.

Sumir eru með arðsemiskröfur

þar sem aðrir eru með sál.

 

Þegar allt er krufið og allt er ljóst

og öll spilin lögð eru á borðið

er magnaður andskoti hve menningarsnauð

ein manneskja getur orðið.

 

D. Þ. J.