Menningarsnauð

laxnessListamannalaunum var mokað

í Laxness og alla þessa stóru

og enginn hafði áhyggjur af því

í hvað peningarnir fóru,

því þeir sköpuðu margvísleg menningarverðmæti;

myndlist, tónlist og ljóð.

Það þótti hverrar krónu virði

að geta kallast menningarþjóð.

 

Svo komu fram litlir kapítalistar

sem kveinkuðu sér undan því

að borga fyrir að búa sæmilega

boðlegu samfélagi í.

„Burt með menningu! Burt með listir!“

baula þeir þjóðina á.

Að horfa á Stöð 2 og hlusta á Bylgjuna

er himnaríki fyrir þá.

 

Þegar allt er skoðað og allt er sagt

og öll spilin lögð eru á borðið

þá er merkilegt hve menningarsnauð

ein manneskja getur orðið.

 

Ár hvert heyrist sami söngur

um þá sóun á almannafé

að ölmusa reytt sé í rithöfunda

rétt eins og ekkert sé.

Á þeim sem fjálglegast fleipra má skilja

að fyrir þessa hungurlús

mætti byggja hér heilbrigt heilbrigðiskerfi

og hátæknisjúkrahús.

 

Þegar öllu er svarað og alls er spurt

og öll spilin lögð eru á borðið

þá er makalaust hve menningarsnauð

ein manneskja getur orðið.

 

Fagrar listir fá þig til að hugsa

ef þú ert fær um það til að byrja með.

Hjá heimskingjum og þeim sem hagnast á þeim

er háleit list því illa séð.

Myndlist er veggfóður og ljóð eru ljótt

og leiðinlegt rósamál.

Sumir eru með arðsemiskröfur

þar sem aðrir eru með sál.

 

Þegar allt er krufið og allt er ljóst

og öll spilin lögð eru á borðið

er magnaður andskoti hve menningarsnauð

ein manneskja getur orðið.

 

D. Þ. J.

Ekki í bakgarðinum hjá mér

Þá sem ratað hafa á refilstigu

á að reisa við að nýju,

byggja þá upp og búa þeim skjól

og baða þá ást og hlýju

svo rísi þeir á fætur fljótt

og fari að bjarga sér,

en ekki í bakgarðinum hjá mér.

 

Hvar sem kostur er

og lítið fyrir þeim fer,

bara ekki hér

í bakgarðinum hjá mér.

 

Og þeir sem glíma við geðræna kvilla

sem gera lífið að kvölum

þurfa greiðan aðgang að griðastað

í grimmdarveðrum svölum

þar sem boðskapur Guðs um hjartahlýju

í hávegum jafnan er,

en ekki í bakgarðinum hjá mér.

 

Hvar sem kostur er …

 

Og þegar lenda í lyfja víti

landsins synir og dætur

á að hjúkra þeim til heilsu á ný

og hjálpa þeim á fætur

og taka þeim síðan opnum örmum

er út í lífið þau ber,

en ekki í bakgarðinum hjá mér.

 

D. Þ. J.

Sigmundardrápa

Sigmundur_Davíð_Gunnlaugsson_2016_(cropped_resized)Frækinn fór á barinn

fólki með í gleðskap,

gapa tók og geipa,

gjamma mér til skammar,

dónarembu demba,

drulla á fullu yfir

siðað fólk og friðsamt,

fóli mínu ólíkt.

 

Hrossakaupum hossa

hiklaust gerðum mikið,

bitlingum að býtta

bauðst að þætti auðsótt,

kellingar að kalla

klámi í mig rámar.

Þannig enn við þöndum

þokkalega okkur.

 

Fatlað fólk ég ætla

ferlegt æði að hæða,

samkynhneigða um sagði

subbuskapinn dapran,

útlendingum engri

ýldu fyrir skýldi.

Rammur geysti gammur

getulausra freta.

 

Hirðar þetta heyrðu,

hlera tóku klókir,

bundu í geymd á bandi

blaðrið mitt um aðra,

birtu það í blöðum,

betur svo á neti,

menn svo kenna mættu

mitt innræti og skæting.

 

Sjúkir að mér sækja

siðlausir fjölmiðlar.

Reiður ræð að leita

réttar míns gegn fréttum.

Ekkert má ef ekki

aðeins fara á barinn

klám að rausa rámri

röddu pöddufullur.

 

Má ei meir hér heyra

munnræpu á knæpum,

klámið rausað rámum

röddum pöddufullum?

D. Þ. J.

Ulla á hana

Hún gónir á mig með geiflu á smetti

gnístandi tönnum af heift,

glyrnurnar eins og í óðum ketti,

illskan í svipinn greypt

sem hún vilji mig á hálsinn skera,

hróðug ráða mér bana.

Ó, hvílík mæða! Hvað á ég að gera?

Ulla á hana!

 

Ulla á hana! Ulla á hana!

Íhaldið upp að spana.

Ulla á hana!

 

Hnyklaðar brúnir og harðlífisgretta

hélaðri grímunni á.

Hörmung og dauði að horfa á þetta

og hafa ekkert annað að sjá.

Til að hrekja í burtu deyfð og drunga

og daunilla gamla vana

ekkert er betra en íslensk tunga.

Ulla á hana!

 

Ulla á hana! Ulla á hana!

Tungunni fram að trana.

Ulla á hana!

 

Í blöðin rýkur þá frúin fína

fornemelsið sitt með

því tungubroddinn á sér að sýna

sénerar hennar geð.

Þar upplifði hún sig hædda og smáða

og hrædda við kommúnistana.

Núna er alltaf eitt til ráða:

Ulla á hana!

 

Ulla á hana! Ulla á hana!

Pæla það og plana.

Alla með sér mana

frá Grænlandi til Gana.

Ulla á hana!

 

D. Þ. J.

Svínastía

pia-kjrsgaard-080d07d3-ac3b-4222-b60f-ff79c5c33c1-resize-750Hún, sem vill alls ekkert gera gott

þeim sem gráta af neyð og harmi,

er mætt á þingpalla fín og flott

með fálkaorðu í barmi.

Því hátíð mikla halda á

og henni var boðið að gista.

Öllum er lokuð Almannagjá

nema útlenskum nýnasista.

 

Hvernig liði þér ef þú þyrftir að flýja

og þér yrði tekið í landinu nýja

eins og þú mætir öðrum, Pia?

Andlega rotþró

og siðferðilega svínastía.

 

Hún opnar munninn og andleysið streymir

eins og lækur að vori

um arfinn sem þjóðin okkar geymir

af arískum kjark og þori.

Það gengur á með grunnhyggnu masi

um göfgi hins norræna kjöts

af þjóðernishyggju sem Hriflu-Jónasi

hefði þótt „too much“.

 

Hvernig liði þér …

 

Til baka komst hún heilu og höldnu,

sem er hneisa eins og allir sjá.

Í denn var hyski Dana böldnu

drekkt hér í næstu á.

Allt er á leiðinni niður og norður;

nasisminn lifnaður við

og á fasista hengum við fálkaorður.

Þeir fá hér skjól og grið.

 

Hvernig liði þér …

D. Þ. J.

Útvarp Satan

albúm coverSjá!

Yður ég boða ófögnuð mikinn

sem öllum lýðnum mun dynja á.

Bráðum hverfur Frón í fnykinn

sem fjölmenningunni leggur frá.

Óttist skáld og menntamenn,

múslimi, konur og presta.

Ykkar snotra heimsmynd hrynur senn

ef hatrið fer að bresta.

Láttu óttann hreiðra um sig í þér,

á ógnum ég fús skal mata‘hann.

Þú ert að hlusta á Útvarp Satan.

 

Ég skal efla ykkur gegn

óvini sem er svo lítill og smár

að ugglaust honum yrði um megn

á ykkar kolli að skerða hár,

óvini sem er umkomulaus

og á engan hátt getur varið sig

og koma því inn í þinn heimska haus

að hann sé það sem einkum plagar þig,

en sem umfram allt er öðruvísi en þú

svo auðveldara sé að hata‘hann.

Þú ert að hlusta á Útvarp Satan.

 

Allt sem þú gerir einum þinna

alminnstu bræðra sé djöfullegt.

Láttu ofsóknunum aldrei linna.

Auðsýndu mér tóma fylgispekt.

Þá mun ég allar ógnir burt særa

og ekkert slæmt fær að henda þig.

Já, ég mun öryggi og frið þér færa

ef þú fellur fram og tilbiður mig.

Mundu að ég er málsvari þinn.

Án mín er þér lokuð gatan.

Þú ert að hlusta á Útvarp Satan.

Þú ert að hlusta á Útvarp Satan.

Útvarp Satan á Spotify

 

 

Endaþarmur

„Sá sem nefnir sannleikann,“

segir hann

og af hneykslan sárri bærist barmur,

„er blaðamennsku endaþarmur.“

Breiðum yfir, bælum, lokum

byrgjum inni, sveipum þokum

að frjálshyggjunnar fúla hít

er full af skít.

 

„Sá sem glæpum greinir frá,“

hann grenjar þá

og af fögrum tárum flóir hvarmur,

„er fjölmiðlanna endaþarmur.“

Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.

 

„Óvinur míns eðla flokks,“

hann emjar loks

og nú blasir við hans bitri harmur,

„er blaðamennsku endaþarmur.“

Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.

 

Endaþarminn óttast hann

sem opnast kann

og sýna öllum innihaldið

sem okkur leyna reynir valdið.

Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.

 

Okkur birtist eðlið sanna

auðmannanna

og um stund var lítill stauli og garmur

stjórnmálanna endaþarmur.

Breiðum yfir, bælum, lokum … o.s.frv.

D. Þ. J.

Endaþarmur á Spotify

 

Þrammið í stígvélunum

Þau gapa um kristin gildi

og Guð almáttugan.

Í hinu orðinu hrópa þau síðan:

„Hataðu náungann!“

Þau þusa um þjóð og kirkju

en þekkja hvorugt neitt.

Þau halda að í himnaríki

sé herbergið bara eitt.

 

Og þrammið í stígvélunum þokast nær

en þau eru ekki sæl.

Hér er þjóðfylkingin komin. Sieg Heil!

Íslenska þjóðfylkingin. Sieg Heil!

 

Mas þeirra um menningu okkar

er merkingarlaust raup,

því þau hatast við þá sem halda henni uppi

fyrir hundlélegt kaup.

Svo tilbiðja þau tungumálið

og trompast ef þau heyra slett,

en meika varla að mynda sjálf setningu

sem er málfræðilega rétt.

 

Og þrammið í stígvélunum …

 

Svo finnst þeim fólk vera plága

sem er framandi og með ólíka siði,

hrædd um að örfáar hræður

beri herraþjóðina ofurliði.

Þetta er sorglegur söfnuður manna

sem sagan hefur ekkert kennt,

enda hefur verið vísindalega sannað

að þau eru vitlausari en fólk almennt.

 

Og þrammið í stígvélunum …

D. Þ. J.

Þrammið í stígvélunum á Spotify

Þjóð bastarða

Við látum dyggð okkur litlu varða

á landinu okkar veðurbarða.

Á alla marktæka mælikvarða

myndum við vera þjóð bastarða.

 

Niðjar töffara og tölvunjarða,

tryggðartrölla sem lygamarða

inn til dala og út til fjarða

eru samt bara þjóð bastarða.

 

En Ameríka er Guðs land

þar sem allir ganga í hjónaband

áður en þeir eðla sig.

Ei er því að leyna.

Himnaríki hreinna meyja og sveina.

 

Út á lífið með andlitsfarða

aðeins til að fá drjóla harða.

Af siðferði finnst hér ekki arða

enda erum við þjóð bastarða.

 

Uns einhver loksins mun okkur jarða

oní vindsorfna kirkjugarða

í lyngmóa meðal lambasparða

látlaust hórast mun þjóð bastarða.

 

En Ameríka er Guðs land …

 

Frá fenjamýrum til fjallaskarða

flaumur eldheitra bænagjarða

streymandi úr börkum helgra hjarða

hrífur ekki á þjóð bastarða.

 

Við látum dyggð okkur litlu varða

á landinu okkar veðurbarða.

Frá innstu dölum til ystu fjarða

ávallt erum við þjóð bastarða.

 

En Ameríka er Guðs land …

D. Þ. J.

Þjóð bastarða á Spotify

Upplitsdjarfur alþýðupiltur (Ég lýg)

Ég er upplitsdjarfur alþýðupiltur,

óuppdreginn og gerspilltur.

Ég klúðra öllu og öðrum um kenni,

útgerðarólígarka leigupenni.

Ég lýg og lýg og lýg og lýg og lýg

og auðvaldið af áfergju sýg.

 

Ég er algerlega ómissandi.

Ég innleiddi nútímann hér á landi.

Mér getið þið þakkað áfengt öl

og að ekki sé lengur selt maðkað mjöl.

Ég lýg og lýg og lýg og lýg og lýg

og auðvaldið af áfergju sýg.

 

Ég afhenti óreiðumönnum

eigur þjóðarinnar í hrönnum.

Það eina sem ég kann er að eyða og sóa

og atyrða krata ofan úr Hádegismóa.

Ég lýg og lýg og lýg og lýg og lýg

og auðvaldið af áfergju sýg.

D. Þ. J.

Upplitsdjarfur alþýðupiltur á Spotify