Fimmtíu millur

Rolex úr og rauðvín,

rifjasteik og humar,

kampavín og kavíar

á Karíbahafi í sumar,

demanta og dýrgripi,

djásn og galakjóla,

fjársjóði og fasteignir

við felum á Tortóla.

 

Við græðum á daginn og grillum

glöð öll kvöld og tsjillum,

því langflestir lífeyrisþegar

luma á fimmtíu millum.

 

BMW í bílskúrnum

og bifhjól fjögur eða fimm,

sjötíu fermetra sólpallur,

sánabað og prívat gym.

Fjármál okkar flestra

fráleitt eru í volli.

Á öllum veggjum ekkert nema

Ásgrímur og Tolli.

 

Í rokna reisugillum

í rosalegum villum

langflestir lífeyrisþegar

luma á fimmtíu millum.

 

Hömlulausum hedónisma

helgast  vorar stundir:

Nautnalíf á næturklúbbum,

nektardans um grundir,

buff með bústna vöðva,

berar glæsipíur,

revíur og rassaköst,

rómverskar orgíur.

 

Með birgðir af bláum pillum

bornar um á trillum

langflestir lífeyrisþegar

luma á fimmtíu millum.

D. Þ. J.

Fimmtíu millur á Spotify