Þrammið í stígvélunum

Þau gapa um kristin gildi

og Guð almáttugan.

Í hinu orðinu hrópa þau síðan:

„Hataðu náungann!“

Þau þusa um þjóð og kirkju

en þekkja hvorugt neitt.

Þau halda að í himnaríki

sé herbergið bara eitt.

 

Og þrammið í stígvélunum þokast nær

en þau eru ekki sæl.

Hér er þjóðfylkingin komin. Sieg Heil!

Íslenska þjóðfylkingin. Sieg Heil!

 

Mas þeirra um menningu okkar

er merkingarlaust raup,

því þau hatast við þá sem halda henni uppi

fyrir hundlélegt kaup.

Svo tilbiðja þau tungumálið

og trompast ef þau heyra slett,

en meika varla að mynda sjálf setningu

sem er málfræðilega rétt.

 

Og þrammið í stígvélunum …

 

Svo finnst þeim fólk vera plága

sem er framandi og með ólíka siði,

hrædd um að örfáar hræður

beri herraþjóðina ofurliði.

Þetta er sorglegur söfnuður manna

sem sagan hefur ekkert kennt,

enda hefur verið vísindalega sannað

að þau eru vitlausari en fólk almennt.

 

Og þrammið í stígvélunum …

D. Þ. J.

Þrammið í stígvélunum á Spotify

Þjóð bastarða

Við látum dyggð okkur litlu varða

á landinu okkar veðurbarða.

Á alla marktæka mælikvarða

myndum við vera þjóð bastarða.

 

Niðjar töffara og tölvunjarða,

tryggðartrölla sem lygamarða

inn til dala og út til fjarða

eru samt bara þjóð bastarða.

 

En Ameríka er Guðs land

þar sem allir ganga í hjónaband

áður en þeir eðla sig.

Ei er því að leyna.

Himnaríki hreinna meyja og sveina.

 

Út á lífið með andlitsfarða

aðeins til að fá drjóla harða.

Af siðferði finnst hér ekki arða

enda erum við þjóð bastarða.

 

Uns einhver loksins mun okkur jarða

oní vindsorfna kirkjugarða

í lyngmóa meðal lambasparða

látlaust hórast mun þjóð bastarða.

 

En Ameríka er Guðs land …

 

Frá fenjamýrum til fjallaskarða

flaumur eldheitra bænagjarða

streymandi úr börkum helgra hjarða

hrífur ekki á þjóð bastarða.

 

Við látum dyggð okkur litlu varða

á landinu okkar veðurbarða.

Frá innstu dölum til ystu fjarða

ávallt erum við þjóð bastarða.

 

En Ameríka er Guðs land …

D. Þ. J.

Þjóð bastarða á Spotify

Upplitsdjarfur alþýðupiltur (Ég lýg)

Ég er upplitsdjarfur alþýðupiltur,

óuppdreginn og gerspilltur.

Ég klúðra öllu og öðrum um kenni,

útgerðarólígarka leigupenni.

Ég lýg og lýg og lýg og lýg og lýg

og auðvaldið af áfergju sýg.

 

Ég er algerlega ómissandi.

Ég innleiddi nútímann hér á landi.

Mér getið þið þakkað áfengt öl

og að ekki sé lengur selt maðkað mjöl.

Ég lýg og lýg og lýg og lýg og lýg

og auðvaldið af áfergju sýg.

 

Ég afhenti óreiðumönnum

eigur þjóðarinnar í hrönnum.

Það eina sem ég kann er að eyða og sóa

og atyrða krata ofan úr Hádegismóa.

Ég lýg og lýg og lýg og lýg og lýg

og auðvaldið af áfergju sýg.

D. Þ. J.

Upplitsdjarfur alþýðupiltur á Spotify

Sólskin og súkkulaði

Sólskin og súkkulaði,

sældarlíf í freyðibaði,

hamingja, heiðríkja og fjör,

blómskrúð og bikíní,

bíó og tívolí,

sólbað með sælubros á vör.

 

Og þó það grasseri spilling fyrir galopnum tjöldum

að gera eitthvað í því er mikið og leiðinlegt starf.

Og þó að fasistar séu víðast hvar að ná völdum

þá veit ég hvað það er sem ég þarf …

 

Sólskin og súkkulaði …

 

Auðlindir þjóðarinnar eru í ræningjahöndum

og arðurinn af þeim sem heyra ætti þjóðinni til,

á meðan smáglæpamenn eru miskunnarlaust eltir á röndum,

en mér er sama því það sem ég vil … er …

 

Sólskin og súkkulaði …

D. Þ. J.

Sólskin og súkkulaði á Spotify

 

Ósmekkleg sýning á auð

Mikið er húsið þitt fínt og flott.

Mikið ferlega hlýturðu að hafa það gott

því hlýlegt hérna ekkert er,

aðeins króm og stál og gler

og hönnunarvara og design dót,

allt svo dýrt að það kostar hönd og fót.

Innanstokksmunirnir alveg mega

og allt í boði Mossack Fonseca.

 

Ósmekkleg sýning á auð

er orðin daglegt brauð.

Þegar plebbar eignast peninga

eru fágunin og fegurðin dauð.

Ósmekkleg sýning á auð

er dauði og djöfuls nauð.

Plebbar eiga alla peningana

en alþýðan er slipp og snauð.

 

Hérna er augljóslega ekkert basl,

engar Ikea mublur eða svoleiðis drasl.

Svona býr ekkert öreigalið;

aðeins ríkasta prósentið.

Og af því að við ristum ekki grunnt

þá eru hér bókahillur upp á punt.

Hér höfum við unnið ómælt starf

við að eta upp fyrirframgreiddan arf.

 

Ósmekkleg sýning á auð … … o.s.frv.

 

Þú getur keypt þér glæsibíl,

en þú getur ekki keypt þér stíl

og þótt þú kaupir trekk í trekk

tískuföt kaupirðu ekki smekk.

Og gráðu keypt þú getur þér,

en hún gefur þér engan karakter,

því þótt tröllin flytji úr fjöllunum

fara fjöllin ekkert úr tröllunum.

 

Ósmekkleg sýning á auð … … o.s.frv.

D. Þ. J.

Ósmekkleg sýning á auð á Spotify

 

 

Hvar á þessi feiti að vera?

Þeir moka peningum í milljónera

á meðan þeir skera niður og skera

hjá veiku fólki og fátækum lýð

og fylla vasa sína í erg og gríð.

Það er svívirðilegt sem þeir eru að gera.

Ég skal segja ykkur hvar þessi feiti á að vera.

 

Ókeypis pening við ættum að fá

ef eitthvað væri að marka þá.

Það var kosningaloforð, kannski upp á grín,

en kálhausarnir greiddu þeim atkvæði sín.

Þeir sækja fylgi til svoleiðis karaktera.

Ég skal segja ykkur hvar þessi feiti á að vera.

 

Þeir vilja ekki heyra neitt vitleysings glens

en finnst Vigdís Hauksdóttir meika sens

og ná þó kjöri í sérhvert sinn

sem er jú aðalbrandarinn,

því sýnt þeir hafa siðblinduna bera.

Ég skal segja ykkur hvar þessi feiti á að vera.

 

Á bak við fjöllin fimbulhá

í fjötrum á bak við lás og slá,

það er þar sem þessi feiti á að vera.

D. Þ. J.

Hvar á þessi feiti að vera? á Spotify

Gröð í völd

Sjáið, þarna er Bjarni Ben!

Blautur draumur vinstrisins!

Hvar sáuð þið önnur eins  úrvalsgen?

Auðvaldsins Panamaprins!

Olíuokur og önnur svik,

undanskot og leynimakk

að hunsa er okkur hægt um vik.

ef við hreppum ráðherrastóla, takk.

 

Því við erum gröð í völd

og viljum þau strax í kvöld,

þó að gera þurfi samninga við glæpalýð

með grútskítugan skjöld.

Við erum gröð í völd

og vinstrisins gullöld.

Okkar blaður um frelsi og bræðralag

það var bara Pótemkíntjöld.

 

Sigríður er svaka flott,

sigar löggu á varnarlausa,

lætur reka börn á brott,

en bara ef leyfir það einhver klausa.

Hún er vinur vina sinna.

Versta martröð okkar hinna.

Við fjölmiðla hún fer í stríð

að fela tengsl við barnaníð.

 

En við erum gröð í völd

og viljum þau strax í kvöld,

þó að gera þurfi samninga við glæpalýð

með grútskítugan skjöld.

Við erum gröð í völd

og vinstrisins gullöld.

Þó að kúvending okkar og kosningasvik

komist á sögunnar spjöld.

 

Brynjar hann er flottur fýr,

fyrirlítur kvenfólk heitt

og Ásmundur er ansi skýr

og útlendingahatrið beitt.

Kristján Þór á Samherjasjóð.

Í sjóðinn getur ennþá bæst.

Þau saman okkar sjúga blóð.

Sennilega er mannát næst.

 

En við erum gröð í völd

og viljum þau strax í kvöld,

þó að gera þurfi samninga við glæpalýð

með grútskítugan skjöld.

Við erum gröð í völd

og vinstrisins gullöld.

Þá má bræðralaginu blæða út

fyrir bitlinganna fjöld.

D. Þ. J.

Gröð í völd á Spotify

Gremja

Hvað er það sem lætur mig af ergelsi emja,

fær mig til að langa til að kyrkja og kremja,

kveikja í og eitra fyrir, kýla og lemja

og ýmiss konar skemmtileg ódæði fremja?

Gremja! Gremja! Gremja! Gremja!

 

Ýmiss konar grimmdarverk mig fýsir að fremja,

langar ekki mikið við lífið að semja,

stoltið mitt  viðkvæma að stilla og hemja,

skapinu að stjórna eða tunguna temja.

Gremja! Gremja! Gremja! Gremja!

 

Hvað er það sem sál mína setur í hlekki,

yndislega fjötra sem ég elska og þekki,

sýnir mér annarra afglöp og hnekki

svo mínum eigin brestum breyti ég ekki?

Gremja! Gremja! Gremja!

D. Þ. J.

Gremja á Spotify

Fimmtíu millur

Rolex úr og rauðvín,

rifjasteik og humar,

kampavín og kavíar

á Karíbahafi í sumar,

demanta og dýrgripi,

djásn og galakjóla,

fjársjóði og fasteignir

við felum á Tortóla.

 

Við græðum á daginn og grillum

glöð öll kvöld og tsjillum,

því langflestir lífeyrisþegar

luma á fimmtíu millum.

 

BMW í bílskúrnum

og bifhjól fjögur eða fimm,

sjötíu fermetra sólpallur,

sánabað og prívat gym.

Fjármál okkar flestra

fráleitt eru í volli.

Á öllum veggjum ekkert nema

Ásgrímur og Tolli.

 

Í rokna reisugillum

í rosalegum villum

langflestir lífeyrisþegar

luma á fimmtíu millum.

 

Hömlulausum hedónisma

helgast  vorar stundir:

Nautnalíf á næturklúbbum,

nektardans um grundir,

buff með bústna vöðva,

berar glæsipíur,

revíur og rassaköst,

rómverskar orgíur.

 

Með birgðir af bláum pillum

bornar um á trillum

langflestir lífeyrisþegar

luma á fimmtíu millum.

D. Þ. J.

Fimmtíu millur á Spotify

Feminískt helvíti

Hann sofnaði út frá sjónvarpsprédikara

sem sagði honum frá landi í norðurhöfum

Þar sem konur eru menn með mönnum

og mætt er þeirra sanngjörnustu kröfum.

 

Hvað kallar hann að konur læri að lesa

og losi sig við ljóta lúsablesa?

Að engin heilbrigð kona við honum líti?

Feminískt helvíti! Feminískt helvíti!

 

Upp í pallbílinn hann haglaranum hendir

og heldur á Trump-rallíið.

Heima í hjólhýsinu er konan

hlekkjuð eldavélina við.

 

Hvað kallar hann að konur fái að ráða

hvenær og með hverjum þær fá‘ða?

Að einstæðar mæður enginn grýti?

Feminískt helvíti! Feminískt helvíti!

 

Tal um jöfn tækifæri

er taumlaus frekja og stælar.

Hann er Suðurríkjamaður mikill,

þar sem menn eru menn og konur þrælar.

 

Hvað kallar hann að konur sitji á þingi,

á kaunum og samfélagsmeinum stingi

og ýmiss konar umbótum úr vör ýti?

Feminískt helvíti! Feminískt helvíti!

 

Hvað kallar hann konur séu jafnar

körlum þar sem samfélagið dafnar?

Að heimurinn allra hæfileika nýti?

Feminískt helvíti! Feminískt helvíti!

D. Þ. J.

Feminískt helvíti á Spotify