Ulla á hana

Hún gónir á mig með geiflu á smetti

gnístandi tönnum af heift,

glyrnurnar eins og í óðum ketti,

illskan í svipinn greypt

sem hún vilji mig á hálsinn skera,

hróðug ráða mér bana.

Ó, hvílík mæða! Hvað á ég að gera?

Ulla á hana!

 

Ulla á hana! Ulla á hana!

Íhaldið upp að spana.

Ulla á hana!

 

Hnyklaðar brúnir og harðlífisgretta

hélaðri grímunni á.

Hörmung og dauði að horfa á þetta

og hafa ekkert annað að sjá.

Til að hrekja í burtu deyfð og drunga

og daunilla gamla vana

ekkert er betra en íslensk tunga.

Ulla á hana!

 

Ulla á hana! Ulla á hana!

Tungunni fram að trana.

Ulla á hana!

 

Í blöðin rýkur þá frúin fína

fornemelsið sitt með

því tungubroddinn á sér að sýna

sénerar hennar geð.

Þar upplifði hún sig hædda og smáða

og hrædda við kommúnistana.

Núna er alltaf eitt til ráða:

Ulla á hana!

 

Ulla á hana! Ulla á hana!

Pæla það og plana.

Alla með sér mana

frá Grænlandi til Gana.

Ulla á hana!

 

D. Þ. J.