Óðurinn til heimskunnar

Gunnarshólmi er undir sjávar öldum,

á efstu tindum sindrar hvergi á mjöll,

Suðurland á sjávarbotni köldum,

súrar bárur lemja Eyjafjöll,

plastið fyllir firði alla og víkur,

fúlar gufur stíga sjónum af,

horfnir jöklar, hálendið burt fýkur

í hamfaraveðrum út á reginhaf.

 

Það var ekki af illsku sem við eyðilögðum jörðina;

að ekki dugði viðvörun nein.

Það var ekki af illsku sem við heyrðum ekki og hlustuðum.

Heimskan var að verki ein.

 

Skógarnir grænu grotnaðir og fúnir,

geislavirkt til jarðar streymir regn,

himininn þekja skýjabakkar brúnir,

brennandi sólin nær þar vart í gegn,

í gallsúrt haf er Grænlandsjökull runninn,

glataður líka Suðurskautsins ís,

regnskógur heimsins rifinn upp og brunninn,

rótnöguð sérhver urt í Paradís.

 

Það var ekki af illsku …

 

Farna kynslóð ekki neinn vill nefna

nema til að spyrja hana: „Hví?

Um langa hríð var ljóst hvert myndi stefna.

Hví létuð þið sem þið vissuð ekki af því?

Hví var jörðinni allt gert til ama?

Af hverju er hún nú af gæðum snauð?“

Við svörum engu, enda er okkur sama

og auk þess erum við þægilega dauð.

 

Það var ekki af illsku …

D. Þ. J.

Óðurinn til heimskunnar á Spotify